Kostir þess að vera hluti af íþróttaliði eru margir. Það getur ýtt undir vinskap og eflt samvinnu að sameiginlegu markmiði. Sum börn velja íþrótt út frá því hvað aðrir í kringum þau æfa eða hafa æft t.d. systkini, foreldrar, vinir eða kunningjar. Umræður í skólanum, umfjöllun í fjölmiðlum og viðburðir í nærumhverfinu hafa einnig áhrif á áhuga barna fyrir íþróttum. Flest íþróttafélög og íþróttasambönd auglýsa og kynna starfsemi sína vel og bjóða reglulega upp á prufutíma. Kostnaður, tími og æfingatímabil geta einnig áhrif á þetta val.
Við val á íþrótt er góð upplýsingaöflun mikilvæg til að stuðla að farsælu upphafi og ástundun. Þegar ætlunin er að hefja æfingar með nýju liði er gott að spyrja sig nokkurra spurninga áður. Hér á eftir koma ráðleggingar sem geta stutt við farsælt upphaf að nýrri hópíþrótt.
Öflun upplýsinga
- Spyrja aðra foreldra um liðið og íþróttafélagið.
- Kynna sér reglur íþróttarinnar, væntingar og tímalegd æfinga á heimsíðum.
- Hafa samband við þjálfara og ræða saman áður en æfingar hefjast.
- Fylgjast með æfingum með barninu.
- Eiga samtal við barnið hvort íþróttin höfði til þess.
Undirbúningur fyrir þjálfara
- Ræða við þjálfara um væntingar til iðkenda.
- Ræða hugsanlegar leiðir sem reynst gætu vel í að aðlaga fyrstu æfingu eða leik og útbúið plan.
Undirbúningur fyrir barnið
- Fræða barnið um íþróttina, reglur og tilgang hennar.
- Kenna barninu grunntökin, prófa og jafnvel æfa íþróttina sjálf.
- Meta hvers konar aðlögun gæti hentað til að hámarka árangursríka þátttöku með því að prófa íþróttina heima.
Undirbúningur fyrir keppnisdag
- Mæta fyrr svo barnið fái góðan tíma til að aðlagast nýju umhverfi.
- Leyfa systkini eða vin að koma með ef það gæti haft jákvæð áhrif á líðan barnsins í nýjum aðstæðum.
- Veita nauðsynlegan stuðning og hvetja barnið til sjálfstæðis eins og hægt er.
Að loknum fyrsta leik eða æfingu og eftir því sem líður á æfingartímabilið getur verið gott að ræða við barnið um þátttökuna, hvaða hluti íþróttarinnar er skemmtilegur og hvaða hluti er ekki jafn skemmtilegur og að lokum hvort barnið hafi ánægju af því að taka þátt í þessari íþrótt. Regluleg samskipti og endurgjöf við þjálfara um stöðuna er mikilvæg. Upplýsingar um næstu færniþætti sem unnið verður að nýtist til undirbúnings með því að æfa heima.
Þegar barn æfir nýja íþrótt er upplagt að bjóða vinum og vandamönnum að koma með og jafnvel taka myndir. Minningar sem skapast í gegnum þátttöku barnsins geta varað út lífið. Þegar þú kynnist öðrum foreldrum íhugaðu að bjóða liðsfélögum í heimsókn og æfa íþróttina þar.
Samantekt
Þegar barnið byrjar æfingar með nýju liði fylgja því ýmsar áskoranir og tækifæri og er því eðlilegt að það taki tíma að venjast nýju umhverfi og aðstæðum. Mikilvægt er að hvetja barnið til að prófa og taka nokkrar æfingar áður en ákvörðun er tekin um að prófa aðra íþrótt. Mikilvægt er að fagna og fanga allar tilraunir barnsins og þann árangur sem á sér stað, stóran eða smáan, á meðan barnið er að byrja að æfa í nýju liði.