Samþykkt þann 28. ágúst 2025
Lög Gló
1. grein: Heiti félagsins og heimili.
- Gló stuðningsfélag (áður Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra), kt.630269-0249, er frjálst og óháð almannaheillafélag, sem stofnað var árið 1952. Félagið starfar eftir lögum nr. 110/2021 um félög til almannaheilla.
- Heimili félagsins, aðalstarfsstöð og varnarþing er að Háaleitisbraut 13 í Reykjavík.
2. grein: Tilgangur félagsins.
- Tilgangur félagsins er að efla þátttöku barna og ungmenna í samfélaginu með áherslu á að styðja við tækifæri fatlaðs fólks, einkum fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra, til að eiga aðild að tómstundum og menningu, lifa öruggu og heilbrigðu lífi og rækta sjálfsmynd sína, hæfileika og færni.
- Félagið er málsvari í þágu fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra og leggur áherslu á fjölbreytileika og mannréttindi í öllu sínu starfi. Félagið starfar samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
- Félagið er vettvangur fyrir samstarf félagsfólks, fjölskyldna, fræðimanna og fagfólks í þeim tilgangi að:
- Hafa mótandi áhrif á viðhorf og orðræðu í samfélaginu til að draga úr mismunun og samfélagslegum hindrunum sem börn með fjölbreyttar heilsutengdar áskoranir og stuðningsþarfir verða fyrir.
- Efla, skapa og miðla þekkingu og þjónustu sem styður við tækifæri fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra til þátttöku og þroska í víðum skilningi.
3. grein: Starfsemi félagsins.
- Starfsemi í þágu tilgangs félagsins er sett fram undir þremur megin áhersluþáttum:
- Félagsstarf og þekkingarmiðlun
- Snemmtæk íhlutun og endurhæfingarþjónusta
- Tómstundatækifæri
- Félagsstarf og þekkingamiðlun á vegum félagsins fer fram með fundum, viðburðum, skipulögðum námskeiðum eða samstarfi og getur beinst að jafningjastuðningi, fræðslu til foreldra, fagfólks, þjónustuveitenda eða almennings.
- Félagið starfrækir Æfingastöðina þar sem veitt er snemmtæk íhlutun og fjölbreytt endurhæfingarþjónusta fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Æfingastöðin starfar samkvæmt lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, og vinnur í samstarfi við aðra þjónustuveitendur á sviði heilbrigðis-, skóla- og félagsþjónustu. Hugmyndafræði fjölskyldumiðaðrar þjónustu og ICF líkansins um færni, fötlun og heilsu leiðir starf Æfingastöðvarinnar.
- Félagið býður upp á sumarbúðir m.a. í Reykjadal, og stendur fyrir ýmsum tómstundatækifærum fyrir börn og ungmenni með fjölbreyttar áskoranir og stuðningsþarfir. Sumarbúðir eru reknar með rekstrarleyfi frá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) samkvæmt lögum nr. 88/2021.
4. grein: Fjármögnun og ráðstöfun fjármuna.
- Rekstur og verkefni á vegum félagsins eru fjármögnuð með stofnframlögum, opinberum framlögum, félagsgjöldum, sjálfsaflafé, styrkjum og tekjum af þjónustu.
- Félagið er ekki rekið í hagnaðarskyni og félagsaðild fylgja engin fjárhagsleg réttindi. Félagsmenn bera ekki ábyrgð á skuldum og öðrum skuldbindingum félagsins nema með árgjaldi sínu.
- Tekjum félagsins skal ráðstafað í samræmi við tilgang þess til lengri eða skemmri tíma. Stofnfé, árgjöld og önnur framlög frá einstaklingum, fyrirtækjum, félögum og öðrum er óendurkræft framlag til félagsins.
- Afsal eða kaup fasteignar eða annarrar eignar sem hefur þýðingu fyrir rekstur félagsins þarf samþykki félagsfundar, sbr. enn fremur grein 7.4.
5. grein: Félagsaðild.
- Félagsmenn geta þeir orðið sem vilja styðja við tilgang og starfsemi félagsins. Umsókn um aðild skal send skrifstofu félagsins eða með skráningu á vef félagsins. Félagsmönnum er skylt að greiða félagsgjald sem aðalfundur ákveður. Stjórn félagsins skal halda skrá yfir félagsmenn. Þar skal skrá fullt nafn, kennitölu, heimilisfang og netfang félagsmanna.
- Félagsmaður á rétt á því hvenær sem er að segja sig úr félaginu með því að tilkynna það skriflega til skrifstofu félagsins. Úrsögnin tekur gildi frá næstu áramótum. Félagsmaður telst genginn úr félaginu hafi hann ekki greitt félagsgjöld samtals í þrjú ár.
6. grein: Styrktarfélagsaðild.
- Styrktarfélagsaðilar eru þeir aðilar sem styrkja starfsemi félagsins með mánaðarlegum greiðslum.
- Styrktarfélagsaðilar hafa ekki atkvæðisrétt á félagsfundum en hafa rétt til setu sem áheyrnarfulltrúar.
7. grein: Félagsfundir og ákvarðanir félagsins.
- Félagsfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins.
- Aðalfund skal halda eigi síðar en 15. júní ár hvert. Aðra félagsfundi skal halda hafi það verið ákveðið á aðalfundi eða stjórnin telji ástæðu til þess. Notenda- og fagráð og minnst tíundi hluti félagsmanna getur einnig krafist þess að félagsfundur verði haldinn í þeim tilgangi að taka ákveðið mál til meðferðar. Skal krafan skriflega gerð og fundarefni tilgreint. Fund skal boða innan 14 daga á sama hátt og aðalfund.
- Allir félagsmenn sem skráðir eru í félagaskrá, eiga rétt til setu á félagsfundum með málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt. Félagsmanni er heimilt að veita öðrum umboð til að fara með atkvæðisrétt sinn en einungis er hægt að veita sama manni eitt umboð.
- Meirihluti atkvæða ræður úrslitum á félagsfundi en minnst 3/4 hluta greiddra atkvæða þarf til breytinga á lögum félagsins og slíta því.
- Fundargerðarbók skal haldin um það sem gerist á félagsfundum og í hana færðar allar bókanir, ályktanir, ákvarðanir og niðurstöður funda.
8. grein: Aðalfundur.
- Aðalfund skal boða í tölvupósti og á vef félagsins með minnst tveggja vikna fyrirvara og er hann þá lögmætur. Í fundarboði skal koma fram hvar og hvenær fundur verður haldinn, dagskrá fundar og heimild félagsmanna til að setja mál á dagskrá fundarins. Fari fundur fram að hluta til eða alfarið á rafrænan hátt skal þess getið í fundarboði.
- Aðalfundi skal stjórnað samkvæmt almennum fundarsköpum. Hann skal hefjast á fundarsetningu og kjöri fundarstjóra og fundarritara. Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
a. Skýrsla stjórnar um starfsemina á liðnu ári kynnt og lögð fram til umræðu.
b. Ársreikningar félagsins fyrir liðið starfsár ásamt skýrslu endurskoðanda lögð fram til umræðu og samþykktar.
c. Tillögur um lagabreytingar.
d. Ákvörðun um félagsgjöld félagsmanna.
e. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna.
f. Kosning í stjórn og notenda- og fagráð.
g. Kosning endurskoðanda.
h. Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur mál sem löglega eru upp borin.
9. grein: Stjórn félagsins.
- Á milli félagsfunda er æðsta vald í málefnum félagsins í höndum stjórnar. Stjórnin fer með málefni félagsins í samræmi við ákvarðanir þess, lög, tilgang og markmið.
- Stjórn félagsins skipa sjö einstaklingar og tveir til vara. Kjörtímabil stjórnarmanna og varamanna er tvö ár. Á aðalfundi á oddatöluári skal kjósa formann, tvo aðalmenn og einn varamann. Á sléttu ári skjal kosið um fjóra aðalmenn og einn varamann. Stjórn kýs varaformann úr sínum hópi og skiptir að öðru leyti með sér verkum.
- Framboðum til stjórnar félagsins skal skila til stjórnar ekki síðar en viku fyrir boðaðan aðalfund. Kjörgengi í stjórn hafa skráðir félagsmenn, sem eru lögráða. Fastráðnir starfsmenn félagsins skulu ekki sitja í stjórn og ekki heldur þeir sem hafa setið í stjórn samfellt í 12 ár fyrir aðalfund. Ekki má sami einstaklingur gegna störfum formanns lengur en fimm kjörtímabil samfellt. Leitast skal við að tryggja nauðsynlega og fjölbreytta þekkingu og reynslu innan stjórnar.
- Stjórnin er ákvörðunarbær þegar meiri hluti stjórnarmanna sækir fund. Einfaldur meiri hluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum.
- Varamenn skal boða á alla stjórnarfundi. Varamaður hefur málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt nema hann gegni störfum aðalmanns. Í forföllum stjórnarmanna skal sá varamaður taka sæti sem fyrr var kosinn. Hverfi stjórnarmaður, sem á að minnsta kosti ár eftir af kjörtíma sínum, úr stjórn, skal á aðalfundi kjósa um sæti hans.
10. grein: Hlutverk og ábyrgð stjórnar.
- Stjórn félagsins skal móta stefnu og skipuleggja starf félagsins. Stjórnin skal funda reglulega til að hafa eftirlit með rekstri félagsins og taka ákvarðanir um starf þess. Formaður boðar til stjórnarfunda eins oft og þurfa þykir en þó skulu fundir aldrei vera færri en fjórir á ári. Stjórn skal halda fundargerðabók þar sem niðurstöður og ákvarðanir stjórnarfunda eru skráðar.
- Formaður kemur fram fyrir hönd stjórnar gagnvart framkvæmdastjóra og ber ábyrgð á undirbúningi og framgangi ýmissa mála milli stjórnarfunda.
- Formaður boðar til stjórnarfunda með sannanlegum hætti með minnst viku fyrirvara nema skemmri frestur sé nauðsynlegur vegna sérstakra aðstæðna. Með fundarboði skal senda út dagskrá og fundargögn. Ef ráðinn er framkvæmdastjóri situr hann stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétti nema stjórn ákveði annað um einstaka fundi. Stjórnarfund skal halda ef einhver stjórnarmanna eða framkvæmdstjóri óskar þess. Mikilvægar ákvarðanir má ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið, sé þess nokkur kostur.
- Meirihluti stjórnar ritar firma félagsins og getur veitt og afturkallað prókúruumboð.
- Stjórn skal sjá til þess að nægilegt eftirlit sé með bókhaldi félagsins og að fjármunum félagsins sé ráðstafað í samræmi við stefnu og tilgang þess.
- Stjórn getur falið einstökum félagsmönnum að inna af hendi störf í þágu félagsins og greitt fyrir þau ef þörf krefur. Einnig getur stjórn skipað sérstakar nefndir í sama tilgangi. Formenn nefnda skulu gera stjórn félagsins skriflega grein fyrir störfum þeirra fyrir lok mars ár hvert.
- Stjórn skal setja sér starfsreglur um hlutverk stjórnar og framkvæmd verkefna hennar, þar á meðal um vanhæfi stjórnarmanna og eftir því sem við á reglur um störf stjórnarformanns og framkvæmdastjóra og verkaskiptingu þeirra.
- Stjórn er heimilt að setja siðareglur og reglur um nánari framkvæmd einstakra lagareglna, til dæmis um störf og þóknun nefnda og ritun fundargerða. Reglurnar skulu birtar á vefsíðu félagsins.
11. grein: Hlutverk framkvæmdastjóra.
- Stjórn er heimilt að ráða framkvæmdastjóra og ákveður starfskjör hans. Framkvæmdastjóri getur ekki verið í stjórn félagsins.
- Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins, þar með talið fjármálum og reikningshaldi og kemur fram fyrir hönd þess í öllum málum sem varða daglegan rekstur. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða meiriháttar heldur þarfnast þær heimildar stjórnar. Framkvæmdastjóri sér um ráðningu starfsfólks en skal hafa samráð við stjórn félagsins um ráðningu lykilstarfsmanna.
- Framkvæmdastjóri getur komið fram út á við fyrir hönd félagsins og skuldbundið það í málum sem heyra undir daglegan rekstur.
- Framkvæmdastjóra ber að veita stjórn og endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur félagsins sem þeir kunna að óska eftir og veita ber samkvæmt lögum.
12. grein: Notenda- og fagráð.
- Notenda- og fagráð er fulltrúaráð, skipað níu félagsmönnum sem hafa reynslu sem notendur þjónustu á vegum félagsins og/eða fræðilega þekkingu á málefnum sem snerta tilgang félagsins. Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri mega ekki sitja í ráðinu.
- Þrír fulltrúar eru kjörnir í ráðið á hverjum aðalfundi til þriggja ára í senn. Kjörgengi í notenda- og fagráð hafa skráðir félagsmenn. Ráðið kýs sér forsvarsmann sem er tengiliður við stjórn.
- Hlutverk notenda- og fagráðs er að vera ráðgefandi í þróun og mótun starfsemi á vegum félagsins. Stjórn ber ábyrgð á því að boða til fundar með ráðinu minnst einu sinni á ári. Minnst þrír fulltrúar í notenda- og fagráði geta krafist þess að stjórn boði til fundar um að ráðið taki tiltekið mál til meðferðar. Notenda- og fagráð getur komið með skriflegar ábendingar og tillögur til stjórnar en stjórn getur einnig vísað málum til umfjöllunar í ráðinu. Notenda- og fagráð getur óskað eftir félagsfundi sbr. grein 7.2. í lögum þessum.
13. grein: Bókhald og ársreikningur.
- Stjórn og framkvæmdastjóri skulu sjá til þess að bókhald félagsins sé fært og að ársreikningur sé saminn fyrir hvert reikningsár í samræmi við lög. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Ársreikningur skal fullgerður og undirritaður af stjórn og framkvæmdastjóra eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund og lagður þar fram til samþykktar.
- Á aðalfundi skal kjósa löggildan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til eins árs í senn.
- Eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreiknings skal stjórn félagsins birta ársreikning, ásamt skýrslu stjórnar, áritun endurskoðanda og upplýsingar um hvenær ársreikningur var samþykktur, á vef félagsins eða opinberlega með sambærilegum hætti.
14. grein: Slit félagsins.
- Tillögur um að leggja félagið niður þarfnast 3/4 greiddra atkvæða félagsfundar. Sé það samþykkt, skal eigum félagsins ráðstafað í samræmi við tilgang þess samkvæmt nánari ákvörðun fundarins. Taka skal sérstaklega fram í fundarboði, ef tillaga um slit félagsins liggur fyrir félagsfundi.
15. grein: Lagabreytingar.
- Lögum þessum má aðeins breyta á löglega boðuðum félagsfundi. Skriflegum breytingartillögum skal skila til stjórnar félagsins áður en til fundar er boðað og skal þeirra sérstaklega getið í fundarboði. Lagabreyting telst samþykkt ef minnst 3/4 hluta greiddra atkvæða greiða henni atkvæði.
16. grein: Gildistaka.
- Lög þessi öðlast gildi við samþykkt á aðalfundi 2025.
Samþykkt á framhaldsaðalfundi 28. ágúst 2025.