Starfsemi Gló Æfingastöðvar

Starfsemin  

Árlega sækja um 1600 einstaklingar sjúkra- og iðjuþjálfun hjá Gló Æfingastöð. Um 92% þeirra eru börn og ungt fólk með fjölbreyttar þarfir og áskoranir.  

Á Gló Æfingastöð fer fram fjölbreytt þjónusta sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa sem er studd af öflugu teymi aðstoðarfólks og skrifstofu. Við vinnum í nánu samstarfi við fjölskylduna og umhverfi barnsins, í gegnum þátttöku og leik. Saman vinnum við að því að efla styrkleika barnsins og styðjum fjölskylduna til að efla þroska og vellíðan í daglegu lífi.  

Við kortleggjum þarfir barnsins, umhverfi þess, styrkleika og áhugasvið og gerum áætlun um hvernig við ætlum að vinna saman að þeim markmiðum sem sett eru í forgang. Í því getur falist bein íhlutun, aðlögun á umhverfi, útvegun stoð- og hjálpartækja, ráðgjöf og stuðningur. 

Á Gló Æfingastöð er þjónustan fjölskyldumiðuð þar sem foreldrar og aðstandendur sem þekkja barnið best eru mikilvægasti hluti teymisins. Þjónustan fer fram á Gló Æfingastöð eða í nánasta umhverfi barnsins, svo sem í leikskólanum, skólanum eða á heimili þess. Teymisvinna innan og utan Æfingastöðvarinnar er mikilvægur þáttur í starfseminni. Samvinna við aðra fagaðila og aðila í nærumhverfi barnins er nauðsynleg til að stuðningurinn við barnið og fjölskylduna sé samræmdur.

Þjónustan er ætluð fyrir börn, unglinga og ungt fólk með ýmis konar áskoranir og stuðningsþarfir en einnig er boðið uppá sjúkraþjálfun fyrir afmarkað hóp fólks 18 ára og eldri. 

Markmið með þjónustu á Gló Æfingastöð er alltaf að efla börn, ungmenni og fullorðið fatlað fólk til þátttöku í daglegu lífi og auka velferð og lífsgæði fjölskyldunnar.  

Samkvæmt reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra, niðurgreiða Sjúkratrygginga Íslands sjúkra- og iðjuþjálfun að fullu fyrir börn og ungmenni að 17 ára aldri. Átján ára og eldri greiða hluta af kostnaði.  

Gló Æfingastöð er í virku samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og tekur reglulega á móti nemum. 

 

Fjölskyldumiðuð einstaklingsþjónusta  

Í náinni samvinnu við fjölskyldu barnsins eru sett einstaklingsmiðuð markmið sem taka mið af aðstæðum, áhuga og framtíðarsýn einstaklingsins og fjölskyldunnar. Íhlutun er miðuð við þörf hvers og eins og er unnin í nánu samstarfi við börnin og fjölskyldur þeirra. Markmiðið er að efla færni barnsins til að það eigi auðveldara með þátttöku í leik og daglegum viðfangsefnum sem hafa þýðingu fyrir það, aðlaga umhverfið til að auðvelda þátttöku og koma auga á tækifæri í umhverfinu til að styðja við þátttöku.  

Hópastarf  

Hópastarf er mikilvægur hluti starfseminnar en rík áhersla er lögð á að bjóða upp á fjölbreytt námskeið og hópþjálfun. Áhersla er lögð á að ýta undir og undirbúa farsæla þátttöku heima fyrir, í skólanum og í reglubundnum tómstundum og íþróttastarfi úti í samfélaginu. Uppbygging og áherslur í mismunandi hópum fara eftir aldri og færni þátttakenda. Meðal þess sem unnið er að er að auka þol og styrk, leikni við athafnir, þátttöku í hópastarfi, samskipti við jafnaldra, sjálfstraust og sjálfstæði í daglegu lífi. Hópastarfið er í stöðugri þróun í takt við þarfir skjólstæðingahópsins hverju sinni.  

Þjónusta með aðstoð dýra 

Á Gló Æfingastöð starfa sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfar með sérþekkingu á að styðjast við dýr í starfi. Meðal þess sem boðið er upp er sjúkraþjálfun á hestbaki, iðjuþjálfun með hesti og iðjuþjálfun með vottuðum þjónustuhundi. 

CP eftirfylgd

Gló Æfingastöð heldur utan um CP eftirfylgd fyrir börn með CP. CPEF er þýtt og staðfært sænskt eftirfylgnikerfi CPUP (CP Uppföljning) sem  notað er í Svíþjóð, Noregi, Danmörku og víðar til að fylgjast með heilsu og færni einstaklinga með CP.