Verkferlar og innra starf Reykjadals

Eitt af gildum Reykjadals er öryggi en mikil áhersla er lögð á gæðastarf og fræðslu í störfum Gló stuðningsfélags.

Reykjadalur vinnur að öllum stöðlum Heilbrigðis- og brunaeftirlits og sækir árlega um leyfi þar. Einnig er leyfi til staðar hjá Gæða- og eftirlitsstofnun og Barnavernd í Mosfellsbæ kemur í eftirlit tvisvar á ári. 

 

Stjórnendur og starfsfólk Reykjadals fylgja verkferlum og vinnureglum í öllum sínum störfum á vegum Gló stuðningsfélags. Einnig er stuðlað að góðu upplýsingaflæði og öruggum skráningum. Öll atvik eru skráð sem og skýrsla gerð um hvern dag þegar starfsemi er á svæðinu. Foreldrar, forsjáraðilar sem og barnavernd og önnur sem koma að öryggi barna og ungmenna geta sótt í allar skráningar.  
 

Í Reykjadal eru til verkferlar um eftirfarandi: 
Einelti  
Heimsókn á læknavakt, bráðamóttöku eða heilsugæslu   

Lyfjamistök 

Neyðarlyf 
Ofbeldi

Sjálfsskaði / Andleg veikindi 

Slys / Sjúkrabíl 

Tannáverkar 

Týndur gestur 

Veikindi 
Ætandi efni innbyrt 

 
Náið samstarf er við foreldra og bakland þeirra sem koma að hverju atviki og við hvetjum öll til að opna umræðuna og hefja samtal við stjórnendur Reykjadals, stjórn Gló eða framkvæmdarstjóra Gló ef eitthvað kemur upp á.
 
Í handbók starfsfólks Reykjadals eru einnig vinnureglur og samskiptareglur sem öllum ber að fylgja. Á þriggja daga undirbúningsnámskeiði starfsfólks ár hvert er einnig farið yfir allt innra starf og verkferla Reykjadals í litlum hópum. Athugið að allt sem kemur að verkferlum og innra starfi er uppfært og endurskoðað árlega.