Starfsemi Gló
Félagsstarf og þekkingarmiðlun
Félagsstarf og þekkingamiðlun á vegum félagsins fer fram með fundum, viðburðum, skipulögðum námskeiðum eða samstarfi og getur beinst að jafningjastuðningi, fræðslu til foreldra, fagfólks, þjónustuveitenda eða almennings.
Snemmtæk íhlutun og endurhæfingarþjónusta
Félagið starfrækir Gló Æfingastöð þar sem veitt er snemmtæk íhlutun og fjölbreytt endurhæfingaþjónusta fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Æfingastöðin starfar samkvæmt lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, og vinnur í samstarfi við aðra þjónustuveitendur á sviði heilbrigðis-, skóla- og félagsþjónustu. Hugmyndafræði fjölskyldumiðaðrar þjónustu og ICF líkansins um færni, fötlun og heilsu leiðir starf Æfingastöðvarinnar.
Tómstundatækifæri
Félagið býður upp á sumarbúðir m.a. í Reykjadal og stendur fyrir ýmsum öðrum tómstundatækifærum fyrir börn og ungmenni með fjölbreyttar áskoranir og stuðningsþarfir. Sumarbúðir eru reknar með rekstrarleyfi frá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) samkvæmt lögum nr. 88/2021.
Tekjur félagsins og ráðstöfun fjármuna
Gló er almannaheillafélag sem er ekki rekið í hagnaðarskyni. Öllum tekjum félagsins er ráðstafað í verkefni sem samræmast tilgangi þess til lengri eða skemmri tíma. Rekstur félagsins og verkefni á vegum þess eru fjármögnuð með opinberum framlögum, gjöldum fyrir þjónustu, sjálfsaflafé, styrkjum og félagsgjöldum.