Vinátta og ævintýri í Reykjadal

Vinátta

Ævintýri

Virðing

Öryggi
Frá 1963 hefur Reykjadalur verið mikilvægur vettvangur tómstunda og vináttu fyrir fötluð börn og ungmenni. Starfsemi Reykjadals nær yfir allt árið og árlega nýta sér um 500 fjölskyldur þjónustu Reykjadals, þörfin og áhuginn eru áþreifanleg og því er algengt að biðlistar séu langir.
Markmið Reykjadals er að veita fötluðum börnum og ungmennum það tækifæri að eiga val um að geta farið í sumarbúðir og eiga jákvætt og uppbyggjandi sumarfrí. Með sumarbúðastarfinu viljum við skapa ævintýri og styðja nýjar og gamlar vináttur. Í Reykjadal myndast frábær stemning í hverjum hópi og saman taka þátt bæði starfsfólk og gestir, á jafningjagrundvelli, að skapa skemmtilegasta sumarfríi sem sumarbúðagestir geta ímyndað sér.
Í Reykjadal starfar kraftmikið og hugmyndaríkt starfsfólk sem leggur sig fram við að gera hverja dvöl einstaka og ógleymanlega. Þau styðja gestina hverju sinni, taka þátt í dagskrá með þeim og huga að líðan þeirra og heilsu. Starfsfólk Reykjadals er einstaklega hlýtt, ævintýragjarnt og ábyrgt þau eru einnig lausnarmiðuð og styðja þátttöku allra til samveru og leiks óháð hindrunum.
Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga börn eiga rétt á leik, hvíld og menningu og þetta þrennt einkennir einmitt það að fara í sumarbúðir. Það að eignast vini á jafningjagrundvelli, kynnast náttúruparadísinni í Mosfellsdal og taka þátt í fjölbreyttri og valdeflandi afþreyingu. Enn fremur starfar Gló stuðningsfélag með Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í fararbroddi.
Gildi Reykjadals eru ævintýri, virðing, vinátta og öryggi og byggir allt starfið þá undirbúningurinn, fræðslan, verkferlarnir og dagskráin sjálf á þessum gildum.
Virðing er eitt af gildum Reykjadals og endurspeglast í samskiptum starfsfólksins við gestina og fjölskyldur þeirra. Hverjum gesti er mætt eftir þeirra stuðningsþörf og áhugamálum. Fötlunin er ekki í forgrunni heldur barnið sjálft, þar sem hindranir eru fjarlægðar úr umhverfinu og lausnarmiðuð nálgun styrkleiki starfsfólksins.