Sagan okkar
Félagið var stofnað af foreldrum árið 1952
Frumkvæði að stofnun félagsins áttu foreldrar barna sem höfðu veikst í skæðum faraldri mænusóttar sem geisaði á Íslandi á þessum tíma. Sjúkdómurinn gekk undir nafninu barnalömunarveiki en hann lagðist einna helst á börn og hafði veruleg áhrif á hreyfigetu þeirra, starfsorku og færni. Þeir Sveinbörn Finnsson og Svavar Pálsson voru hvatamenn að stofnun félagsins og fengu í lið með sér Hauk Kristjánsson lækni og Friðfinn Ólafsson, en þessir fjórir boðuðu til stofnfundar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra þann 2. mars 1952.
Frumkvöðlakraftur í 70 ár
Markmið með stofnun félagsins var að styðja fatlað fólk, einkum börn, í því skyni að stuðla að aukinni orku, starfshæfni og velferð. Engin markviss endurhæfing var starfrækt á Íslandi á þessum tíma, hjálpartæki voru af skornum skammti og samfélagið gerði að litlu leyti ráð fyrir fólki með hreyfihömlun eða aðrar skerðingar. Fötluð börn áttu erfitt með að komast í skóla og lítinn stuðning var að fá fyrir foreldra þeirra. Félagsmenn vildu leggja sitt af mörkum til að breyta þessu og hófust handa við að safna fé og fá til liðs við sig fagmenntað fólk til að undirbúa stofnun endurhæfingarmiðstöðvar.
Fyrsta endurhæfingarstöðin
Með eldmóði, drifkrafti og hjarta fyrir málstaðnum, tókst félagsmönnum að koma starfsemi Æfingastöðvarinnar af stað aðeins fjórum árum eftir stofnun félagsins. Félagið hafði þá eignast íbúðahús á þremur hæðum við Sjafnargötu 13 og gert á því nauðsynlegustu breytingar, meðal annars útbúið litla þjálfunarsundlaug í kjallara hússins. Félagið keypti einnig bíl til að gera fólki auðveldara að sækja endurhæfingu. Aðstaðan var þröng en þjónustan fjölbreytt og miðaði einkum að börnum. Í upphafi var starfsfólkið aðallega erlent fagfólk því aðeins örfáir Íslendingar voru menntaðir á þessu sviði. Starfsemi Æfingastöðvarinnar byggðist upp og blómstraði á Sjafnargötunni í 12 ár, eða allt til ársins 1968 þegar flutt var í ný húsakynni að Háaleitisbraut 13 sem þóttu einkar glæsileg á mælikvarða þess tíma.
Uppspretta gleði og vináttu í Reykjadal
Næsta stóra verkefni félagsins var að opna sumarbúðir fyrir fötluð börn en á þessum tíma var algengt að börn dveldu í sveit yfir sumartímann. Rekstur sumarbúða á vegum félagsins hófst árið 1959 og fór fyrstu árin fram í Reykjaskóla í Hrútafirði og Varmalandi í Borgarfirði. Árið 1963 eignaðist félagið síðan jörðina Reykjadal í Mosfellsdal þar sem starfræktar hafa verið sumarbúðir og ýmis tómstundatækifæri fyrir fötluð börn allt til dagsins í dag. Til að byrja með fór starfsemi Reykjadals eingöngu fram að sumarlagi en í nokkur ár var einnig starfræktur heimavistaskóli yfir vetrartímann. Í dag er helgarstarf tengt sumarbúðunum skipulagt flestar helgar yfir vetrartímann.
Verkefni sem styðja við þátttöku barna og ungmenna
Flest verkefni hafa snúið að þróun tómstundatækifæra fyrir fötluð börn og ungmenni auk margvíslegrar nýsköpunar á sviði sjúkra- og iðjuþjálfunar barna og þjálfunar með aðstoð dýra. Félagið er aðili að ÖBÍ réttindasamtökum og Landssamtökunum Þroskahjálp og hefur tekið virkan þátt í málefnastarfi og hagsmunabaráttu þeirra félaga. Þá kom félagið að stofnun Tölvumiðstöðvar fatlaðra og var eitt af stofnfélögum Sjónarhóls – ráðgjafarmiðstöðvar fyrir börn með stuðningsþarfir. Stofnfélög Sjónarhóls vinna enn þétt saman en þau eru auk Gló stuðningsfélags, ADHD samtökin og Landsamtökin Þroskahjálp, öll staðsett á Háaleitisbraut 13. Ríkulegt samstarf er einnig við aðra sem veita börnum, ungmennum og fjölskyldum þjónustu, hvort sem það er innan félagsþjónustu, skólakerfisins eða heilbrigðisþjónustu. Þá er gott samstarf við íþróttahreyfingu fatlaðs fólks þar með talið átaksverkefnið Allir með sem gengur út á að fjölga tækifærum fatlaðra barna og ungmenna til íþróttaiðkunar.
Stuðningur velunnara ómetanlegt afl til jákvæðra breytinga
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur alla tíð notið mikils velvilja í samfélaginu. Öll uppbygging á aðstöðu og þróun þjónustu á vegum félagsins hefur byggst á sjálfboðavinnu félagsmanna og stuðningi velunnara. Sú velvild sem félaginu hefur verið sýnd í verki með framlagi einstaklinga, félaga, fyrirtækja og hins opinbera, er merki um traust sem félagið hefur áunnið sér í áranna rás með árangursríku starfi.
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra verður Gló
Það sem hefur frá upphafi einkennt störf félagsins er að takast á við áskoranir með því að ganga í verkin og leita lausna. Fara nýjar leiðir og hrinda umbótum í framkvæmd - að koma auga á tækifæri í stað þess að festast í takmörkunum. Í nóvember 2025 var nafni félagsins breytt í Gló stuðningsfélag til að endurspegla betur áherslur og viðhorf í nútíma samfélagi. Áralöng framsýni og metnaður var drifkrafturinn í endurmörkun félagsins og hvatinn að nafnabreytingunni. Nýja nafninu hefur verið vel tekið og félagið mun áfram leggja sig fram um að vera afl til jákvæðra breytinga og skapa tækifæri í stað takmarkana!
Gló stuðningsfélag stendur á herðum alls þess öfluga fólks sem hefur lagt félaginu lið í gegnum áratugina. Það hefur verið sameiginlegt baráttumál að fötluð börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra fái tækifæri til að láta ljós sitt skína – að glóa á sínum eigin forsendum.