Að halda út

Kids doing exercise

Þátttaka í íþróttum og tómstundum getur verið kjörin leið til að efla færni, móta sjálfsmynd og tengsl við aðra. Hins vegar gengur það ekki alltaf upp og stundum geta íþróttir valdið kvíða bæði fyrir barn og foreldra. Þó það sé mikilvægt að halda áfram og reyna að yfirstíga hindranir, þá er einnig mikilvægt að finna út hvenær eigi að hætta þátttöku. Það eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar ákvörðun er tekin um að halda áfram, hætta eða reyna aðra íþrótt eða tómstund. Með því að rýna í og greina vandann verður auðveldara að meta hvaða þáttum er hægt að breyta og hverjum ekki.

Þættir tengdir barninu

  • Hefur barnið áhuga og vilja til að taka þátt í íþróttinni eða tómstundinni? Gott er að hafa í huga að ánægja og vilji til þátttöku kemur ekki fram strax, sérstaklega ef barnið er nýlega byrjað að æfa íþróttina.
  • Er samræmi á milli færni barns og þeirra krafna sem íþróttin eða tómstundin gerir til þess? Kröfur geta verið til líkamlegrar getu (samhæfing, styrk, þol), vitrænnar getu (einbeiting, athygli, lausnaleit) og félagslegrar getu (tjáning, samskipti við aðra).
  • Ef svarið er nei, væri hægt að breyta eða aðlaga svo þátttakan verði árangursríkari?

Þættir tengdir umhverfinu sem geta haft áhrif á þátttökuna

  • Efnislegt umhverfi og aðgengi. Getur barnið farið um öll þau svæði sem þörf er á?
  • Skynáreiti  -  Getur hávaðinn, lýsingin og mannfjöldinn sem tengjast þessari íþrótt verið barninu ofviða?
  • Félagslegur stuðningur - upplifir barnið sig velkomið frá hendi félagsins, þjálfarans og annarra þátttakenda?
  • Framboð af upplýsingum - eru upplýsingar og leiðbeiningar nægilega aðgengilegar fyrir barnið t.d. í hæfilegu magni, endurtekið, sýnikennsla eða myndræn framsetning?

Þættir tengdir íþróttinni eða tómstundinni

  • Er um að ræða einstaklings- eða hópíþrótt?
  • Stundum halda fjölskyldur lengur út þegar um hópíþrótt er að ræða vegna upplifunar þeirra á því að liðið treysti á þátttöku barnsins. Þetta er þáttur til að skoða en slík upplifun á ekki að ráða úrslitum þegar tekin er ákvörðun um að halda áfram eða hætta.

 

Áður en ákvörðun er tekin um að hætta æfingum er gott að athuga hvort hægt sé að gera breytingar á íþróttinni eða tómstundinni svo barnið sé betur í stakk búið til að taka þátt á árangursríkan hátt. 

Dæmi um aðlögun getur verið:

  • Fara upp um eða niður um eitt erfiðleikastig.
  • Ræða við þjálfara og/eða aðra sem koma að áætlun til að auka þátttöku og koma auga á breytingar sem geta leitt til betri upplifunar.
  • Kanna möguleika á að breyta tímasetningu æfinga; morgun- eða helgaræfing í stað seinni parts á virkum degi.
  • Breyta lengd og/eða tíðni æfinga; fjölga hléum, stytta æfingar og/eða fækka þeim.
  • Veita einstaklingi eða minni hóp leiðbeiningar í stað alls hópsins.
  • Skipta um eða breyta áhöldum sem eru notuð.

 

Þýtt og aðlagað frá: Law, M., o.fl. 2013. CanChild Center for Childhood Disability Research, McMaster University