Stundum getur það verið flókið og tímafrekt að klæða sig í og úr fötum og getur þá annars dýrmætur tími með félögum farið til spillis. Þá getur verið ráð að mæta á æfingar í æfingafötunum og spara þannig góðan tíma.
Önnur leið er að æfa barnið markvisst í því að klæða sig. Ein leið til að ná tökum á færni er að beita svokallaðri „afturvirkri keðjun“ (e. backwards Chaining). Þá fær barnið aðstoð við að klæða sig en framkvæmir sjálft síðasta verkþrepið í framkvæmdarkeðjunni. Barnið fær þá tækifæri til að ljúka verkinu sem eykur upplifun á árangri. Með auknu sjálfstrausti og færni fer barnið að geta gert sjálft þau verkþrep sem koma fyrr í framkvæmdarkeðjunni. Til dæmis þegar barnið fer í sokka er því hjálpað við að snúa sokknum rétt, koma tánum í sokkinn og byrja að toga sokkinn yfir hælinn, en barnið klárar sjálft með því að toga sokkinn alla leið upp.
Dæmi um afturvirka keðjun:
Dæmigerð verkþrep við að klæða sig í sokka geta verið eftirfarandi:
-
Snúa sokknum rétt
-
Halda í stroffið á sokknum með báðum höndum
-
Koma tánum inn í sokkinn
-
Toga sokkinn yfir hælinn
-
Toga sokkinn upp ökklann
Þegar afturvirkri keðjun er beitt þá byrjar barnið á fimmta skrefinu. Því næst fjórða skref og svo koll af kolli. Hægt er að kenna börnum að klæða sig í allan fatnað með því að nota þessa aðferð.
Dæmi um stigvaxandi færni með því að nota „afturvirka keðjun“
Sokkar
Verkþrepin fyrir að klæða sig í sokka sitjandi:
-
Toga sokk upp fyrir ofan hæl.
-
Toga sokk upp frá hælnum.
-
Toga sokk upp rétt fyrir neðan hælinn.
-
Toga sokk upp frá tábergi.
-
Koma tám í sokk.
-
Nota báðar hendur við að halda í stroffið.
-
Taka við sokk þar sem sokkurinn snýr rétt (hællinn niður).
-
Klæða sig í sokk þar sem hæll á sokk passar við hæl barnsins.
Buxur
Verkþrepin fyrir að klæða sig í buxur
-
Toga upp buxur sem eru komnar hálfar yfir rassinn.
-
Toga upp buxur frá miðju læri.
-
Toga upp buxur frá hné.
-
Toga upp buxur rétt fyrir neðan hné
-
Toga upp buxur við ökkla.
-
Klæða sig í seinni skálmina. Rétta barninu buxurnar þannig að þær snúi rétt.
-
Klæðir sig í buxur sem eru staðsettar við hlið barnsins.
Þýtt og aðlagað frá: Law, M., o.fl. 2013. CanChild Center for Childhood Disability Research, McMaster University