Að velja íþrótt eða tómstund sem barnið hefur áhuga á, getur reynst hvatning til yfirstíga hindranir. Ef áhugi er til staðar verður upplifunin skemmtilegri og barnið nær frekar árangri. Til lengri tíma litið er áhugi og gleði það sem mestu máli skiptir til að ákveða hvort eigi að halda áfram að æfa eða reyna eitthvað annað. Þegar ákvörðun um að stunda íþrótt eða tómstund er tekin þarf að huga að hvort hægt er að gera aðlaganir á því hvernig þátttaka fer fram eða á umhverfinu. Þannig næst betra samræmi milli færni barnsins og því sem íþróttin eða tómstundin krefst.
Hafðu í huga hvaða tegund hentar og tilganginn með þátttökunni
- Hópíþróttir geta verið góður kostur fyrir börn sem líkar vel við skipulag og rútínu og vilja vera hluti af hóp. Hópíþróttir gera stundum meiri kröfur um skuldbindingu varðandi viðveru og kostnað fyrir æfingar, leiki og búnað.
- Einstaklingsíþróttir eða – tómstundir geta verið góður kostur fyrir börn sem vilja einbeita sér að eigin færni og læra á eigin hraða. Dæmi um slíkt er tónlist, myndlist, dans, hestaíþróttir, skák, bardagaíþróttir, fimleikar, hlaup, sund, skautar og skíði.
- Skipulagt frístundastarf getur verið góður kostur í stað keppnisíþrótta. Dæmi um slíkt eru skátar, hljómsveitastarf, kór og stök námskeið.
Hafðu í huga áhuga barnsins, styrkleika þess og þarfir:
- Barnið gæti lært um ýmsar íþróttir eða tómstundir gegnum systkini, jafnaldra eða fyrirmyndir í skólanum eða úti í samfélaginu. Reyndu að velja íþrótt eða tómstund sem barnið hefur áhuga á til að ýta undir ánægju og hvata til þátttöku.
- Hugaðu að styrkleikum barnsins, t.d. varðandi líkamlega getu, hæfileika til að leysa vandamál eða til að lynda við aðra, og hvernig þeir henta mismunandi tegundum af íþróttum eða tómstundum.
Hafðu í huga mismunandi tómstundatilboð úti í samfélaginu:
- Aflaðu þér upplýsinga um framboð á íþróttum eða tómstundum og fáðu að prófa áður en þú skráir barnið.
Leiðir til að auka ánægju og þátttöku barns í nýrri íþrótt eða tómstund:
Íþróttin eða tómstundin
- Leiðbeiningar: þarf að aðlaga leiðbeiningar t.d. einfalda þær, búta þær niður, gera þær myndrænar eða hafa sýnikennslu?
- Lengd: þarf að aðlaga æfingatíma með fleiri hléum? Er betra að æfa einu sinni í viku heldur en tvisvar? Þegar vel gengur og áhugi er til staðar þá er hægt að auka álagið hægt og rólega.
- Reglur og skipulag: er þörf á að aðlaga reglur svo þær verði einfaldari og stuðli frekar að jákvæðri reynslu og upplifun (t.d. enginn markmaður í markinu þegar æft er mið á markið).
- Búnaður: er þörf á að aðlaga, breyta eða skipta um búnað, t.d. léttari bolta, kylfu, lægra net, nota sundkúta.
- Endurgjöf: notið einföld og skýr skilaboð svo barnið viti hvernig eigi að bera sig að (t.d. „lyftu höndunum yfir höfuð“ í stað „lyftu höndunum“).
- Hvatning: verðlaunaðu allar tilraunir og árangur, hversu lítill sem hann er, með munnlegu hrósi og jákvæðri líkamstjáningu.
Barnið
- Hlutverk: hugaðu að ólíkum hlutverkum sem íþróttin býður upp á. Prófið mismunandi hlutverk til að finna út hvar barnið nýtur sín best. Til dæmis krefjast sum hlutverk meiri samhæfingu og minni kraft eins og markmaður.
- Endurgjöf: ræddu við barnið um hvað gengur vel og hvað er erfitt í nýju íþróttinni eða tómstundinni. Hvaða nýju færni hefur barnið lært og hvaða færni þarfnast meiri þjálfunar? Spurðu barnið hvað getur eflt það til árangurs t.d. æfingar heima eða öðruvísi búnaður.
Umhverfið
- Aðgengi til að komast um: er æfingasvæðið og húsnæðið aðgengilegt? Er nægt rými til að komast um og taka þátt? Er nægt rými til að komast um með hjálpartæki?
- Skynáreiti: hvernig mun barnið bregðast við hljóðum, birtu, hitastigi og áferð á áhöldum?
-
Stuðningur: mun barnið þurfa stuðning í afmörkuðum verkefnum til að taka þátt (t.d. ýta/keyra hjólastólnum um völlinn í körfubolta)? Er þjálfarinn/leiðbeinandinn og jafningjar þolinmóðir og skilningsríkir?
Þýtt og aðlagað frá: Law, M., o.fl. 2013. CanChild Center for Childhood Disability Research, McMaster University